Innlent

Forsetinn fundaði með Magma

Ingimar Karl Helgason skrifar

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, átti fund með Ross Beaty, forstjóra Magma Energy, fyrr í mánuðinum. Þeir ræddu umsvif Magma, sem hyggst hasla sér völl í íslenskum orkuiðnaði.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, er mikill áhugamaður um nýtingu jarðvarma, og hefur meðal annars rætt þau mál á Bandaríkjaþingi. Þá ræddi hann þessi mál einnig á fundi með Glitnismönnum sem haldin var í New York fyrir hrun.

Nú hyggst kanadíska jarðhitafélagið Magma Energy hasla sér völl í íslenskum orkuiðnaði, og hefur þegar keypt sig inn í HS orku, á Reykjanes. Þetta er mjög umdeilt, til að mynda var þessum áætlunum mótmælt á fjölmennum fundi í Grindavík í gærkvöld, og fjármálaráðherra hefur látið kanna hvort Rarik eða aðrir gætu komið inn í kaup á hlutum í HS orku, í stað Kanadamanna.

Fimmtánda ágúst átti Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fund með Ross Beaty, forstjóra Magma Energy. Magnús Bjarnason, stjórnandi ráðgjafarfyrirtækisins Glacier Partners, tók einnig þátt í fundinum. Hann mun hafa staðið í um tuttugu mínútur.

Fundurinn var haldinn að frumkvæði Beaty og Magnúsar. En þar ræddu forsetinn og forstjórinn um jarðhitanýtingu víða um heim. Þá var einnig rætt hvernig tækniþekking Íslendinga gæti nýst í þessum efnum, samkvæmt frásögn á heimasíðu forsetans.

Áætlanir Magma Energy hér á landi bar á góma á fundinum en munu ekki hafa verið hluti af fyrirfram ákveðinni dagskrá. Þó munu þeir ekki hafa rætt sérstaklega kaup Magma Energy á hlutabréfum Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×