Íslenski boltinn

Fjalar: Spilaði handleggsbrotinn í tuttugu mínútur

Ómar Þorgeirsson skrifar
Fjalar Þorgeirsson hefur átt frábært sumar með Fylki.
Fjalar Þorgeirsson hefur átt frábært sumar með Fylki. Mynd/Valli

Fylkismenn urðu fyrir miklu áfalli í gær þegar markvörðurinn Fjalar Þorgeirsson handleggsbrotnaði í 2-1 sigri liðsins gegn Fram í Pepsi-deildinni á Árbæjarvelli.

Handleggsbrotið átti sér stað þegar um stundarfjórðungur lifði leiks en Fjalar, sem hefur átt frábært sumar með Fylki, lét það ekki stöðva sig í því að klára leikinn.

„Ég hleyp bara út í teiginn í aukaspyrnu utan að kanti og kýli boltann en þá kemur einhver Framari sem er að reyna að nikka boltanum með hausnum og við lendum saman af fullu afli og við það brotnar höndin. Ég fann ekkert mikinn sársauka strax heldur var höndin bara dofin.

Ég ákvað bara að halda áfram og spilaði síðustu tuttugu mínúturnar því handleggsbrotinn. Ég var kannski líka eitthvað að reyna að hlífa hendinni því í markinu sem þeir skora kem ég þarna fljúgandi út eins og Súperman og er að reyna að hlífa hægri hendinni," segir Fjalar.

Fjalar hittir bæklunarlækni í dag og þá kemur betur í ljós hvenær hann getur snúið aftur í mark Fylkis en er vitanlega svekktur yfir því að þurfa að sitja á hliðarlínunni á þessum tímapunkti á sumrinu.

„Það kemur bara í ljós í dag væntanlega. Það er stundum talað um að beinið sé 4-6 vikur að gróa en ég veit ekkert hvenær ég get byrjað að spila aftur. Það er líka enn verra fyrir mig að vera markmaður með þetta að gera. Í ljósi þess hvernig liðinu er búið að ganga og mér persónulega þá er þetta augljóslega gríðarlegt áfall fyrir mig," segir Fjalar vonsvikinn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×