Handbolti

Nýtt dómarapar á Makedónía-Ísland vegna mútumála

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bernd Ullrich handboltadómari.
Bernd Ullrich handboltadómari. Nordic Photos / Bongarts
Evrópska handknattleikssambandið hefur skipt um dómara á leik Makedóníu og Íslands í undankeppni EM 2010 sem fer fram annað kvöld ytra.

Til stóð að þýska dómaraparið Bernd Ullrich og Frank Lemme myndu dæma leikinn en þeir hafa flækst í mútumál sem gæti bundið enda á feril þeirra. Þeir áttu að dæma leik í þýsku úrvalsdeildinni um helgina en hafa verið settir í bann af þýska handknattleikssambandinu á meðan rannsókn stendur yfir.

Forráðamenn spænska félagsins Valladolid hafa sakað þýsku dómarana um að hafa þegið mútugreiðslu til að hagræða úrslitum leik liðsins gegn Medvedi Chekov í úrslitum Evrópukeppni bikarhafa fyrir þremur árum. Medvedi varð meistari.

Ullrich og Lemme hafa greint frá því í samtali við þýska fjölmiðla að þeim hafi oft verið boðnar mútur á ferlinum.

„Við höfum annað slagið fengið ansi tvísýn tilboð - eitthvað í líkingu við að ef við dæmum rétt þá munum við ekki sjá eftir því," sagði Ullrich. „Ég man ekki lengur hvort það hafi gerst í tíu eða tuttugu skipti."

Þeir harðneita þó því að hafa nokkru sinni þegið mútugreiðslu eða stundað óheiðarlega dómgæslu. Þeim hafi verið boðin greiðsla upp á 50 þúsund dollara fyrir að dæma Medvedi Chekov í hag í áðurnefndum úrslitaleik en ekki þegið það.

Hins vegar neita þeir að gefa upp hver reyndi að múta þeim, meðal annars af ótta við að viðkomandi gæti reynt að myrða þá.

Annað þýskt dómarapar hefur verið sett á leik Makedóníu og Íslands. Tvíburarnir Bernd og Reiner Mether munu nú dæma leikinn en þeir þykja með allra bestu dómurum heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×