Fótbolti

Raul varð kjaftstopp á Anfield

AFP

Framherjinn Raul hjá Real Madrid segist ekki eiga orð til að lýsa stemmingunni sem hann upplifði þegar hann kom fyrst á Anfield, heimavöll Liverpool.

Hinn goðsagnarkenndi spænski framherji fær tækifæri til að spila þar í fyrsta skipti annað kvöld þegar lið hans Real Madrid sækir Liverpool heim í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Raul kom fyrst á Anfield fyrir nokkrum árum þegar hann ákvað að heimsækja félaga sinn Fernando Morientes sem þá lék með Liverpool.

"Ég á ekki orð til að lýsa því sem ég upplifið þegar fór til Liverpool. Þetta er allt annað en ég á að venjast. Fólk er byrjað að syngja fyrir utan völlinn. Maður gengur í gegn um húsaþyrpingu og allt í einu er maður kominn á völlinn. Maður sér hann ekki fyrr en maður er kominn að honum. Áhorfendurnir, hávaðinn, ástríðan. Andrúmsloftið þarna er ótrúlegt og þetta var bara deildarleikur. Ég get ekki ímyndað mér hvernig er að vera þarna á Meistaradeildarleik - það er örugglega geggjað," sagði Raul í samtali við Times.

Real bíður erfitt verkefni á Anfield eftir að hafa tapað 1-0 á heimavelli í fyrri leiknum. Raul segir að spænska liðið sé tilbúið með aðgerðaáætlun.

"Planið er einfalt. Við þurfum að skora tvö mörk. Það var áfall að tapa heima en við munum ekki gefast upp. Við getum unnið Liverpool á Anfield," sagði gulldrengurinn, sem í vetur varð markahæsti leikmaður í sögu Real Madrid.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×