Handbolti

Alingsås sænskur meistari

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kristján Andrésson, þjálfari Guif.
Kristján Andrésson, þjálfari Guif. Mynd/Tommy Holl

Alingsås varð í dag sænskur meistari í handbolta eftir þriggja marka sigur á Guif, 29-26.

Leikurinn var æsispennandi en Alingsås var sterkari aðilinn lengst af og var með þriggja marka forystu í hálfleik, 14-11.

Guif mættu hins vegar öflugur til leiks í síðari hálfleik og náðu að jafna metin, 19-19, eftir tíu mínútna leik.

Guif náði síðan yfirhöndinni og hélt henni í dágóða stund. Liðið var með tveggja marka forystu þegar tíu mínútur voru til leikloka. En þá tóku leikmenn Alingsås til sinna mála, skelltu í lás í vörninni og unnu þriggja marka sigur.

Kristján Andrésson, fyrrum leikmaður íslenska landsliðsins, er þjálfari Guif og náði lengra með liðið en flestir áttu von á. Bróðir hans, Haukur, er leikmaður liðsins og skoraði þrjú mörk í leiknum.

Alingsås varð í öðru sæti deildarkeppninnar en Guif sló út deildarmeistara Sävehof í undanúrslitunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×