Fótbolti

Hiddink lofar sóknarleik á Anfield

AFP

Guus Hiddink knattspyrnustjóri Chelsea ætlar ekki að leggjast í skotgrafirnar með sínum mönnum þegar þeir sækja Liverpool heim á Anfield í kvöld.

"Við ætlum ekki að sitja aftur og bíða eftir þeim. Við munum reyna að taka frumkvæðið í leiknum hvenær sem færi gefst. Það þýðir ekkert að bíða og láta taka sig í bólinu. Það er ekki leikstíll minn eða liðsins. Það er alltaf erfitt að fá mark á sig á heimavelli í þessari keppni," sagði Hiddink, sem vann Evrópukeppnina með PSV Eindhoven árið 1988.

Hiddinik er ekki þekktur fyrir annað en að láta lið sín spila sóknarbolta og hann segir það ekki síður mikilvægt á útivöllum í svona keppni.

"70% þeirra liða sem skora á útivelli komast áfram í næstu umferð. Það er alltaf áfall fyrir heimaliðið ef þú skorar á útivelli. Knattspyrnustjórinn getur aðeins gert svo og svo mikið, en svo er þetta undir leikmönnum komið," sagði Hiddink.

Liverpool hefur tvívegis lagt Chelsea að velli á leiktíðinni og því er Rafa Benitez knattspyrnustjóri ekki smeykur við Chelsea.

"Við höfum unnið þá tvisvar í deildinni í vetur og það gefur okkur sjálfstraust, en þetta er önnur keppni og þarna ráðast úrslitin á einum eða tveimur mistökum. Það mun ekkert koma sérstaklega á óvart í þessu einvígi enda þekkjast þessi lið mjög vel. Við munum reyna að keyra upp hraðann ef við getum og nýta okkur meðbyr frá stuðningsmönnunum," sagði Benitez.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×