Fótbolti

Úrslitin komu Hiddink á óvart

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guus Hiddink, stjóri Chelsea.
Guus Hiddink, stjóri Chelsea. Nordic Photos / Getty Images
Guus Hiddink sagði að sigur sinna manna í Chelsea á Liverpool í Meistaradeild Evrópu í kvöld hafi verið sanngjarn en úrslitin hafi komið sér á óvart.

Chelsea vann 3-1 sigur með tveimur mörkum frá Branislav Ivanovic og einu frá Didier Drogba.

„Sannleikurinn er sá að það er erfitt að spila á heimavelli Liverpool eins og mörg lið hafa sannað. Ég viðurkenni að úrslitin voru óvænt en við erum afar ánægðir með sigurinn og hann var verðskuldaður," sagði Hiddink.

Fernando Torres kom Liverpool yfir strax á sjöttu mínútu leiksins. „Við byrjuðum mjög illa. Varnarleikurinn var ekki eins góður og hann hefði getað verið."

„Við leyfðum þeim að skora þetta mark nokkuð auðveldlega en ég verð að hæla mínum leikmönnum fyrir baráttu þeirra eftir það. Við fengum tvö góð tækifæri til að jafna leikinn."

„En við brugðumst hárrétt við og skoruðum gott mark úr föstu leikatriði. Eftir það jókst sjálfstraust leikmanna mikið."

Hann var ánægður með frammistöðu Ivanovic í kvöld. „Það getur verið erfitt að vera hjá félagi eins og Chelsea þar sem leikmenn fá oft fá tækifæri í byrjunarliðinu. En hann hefur verið mjög ákveðinn á æfingum og sýnt mikinn andlegan styrk."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×