Bayern Munchen tryggði sér sæti í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í gær með frábærum 4-1 sigri á Juventus sem sat fyrir vikið eftir og þarf að taka þátt í Evrópudeildinni eins og Liverpool.
„Strákarnir eig skilið að fá partý í kvöld," sagði Louis Van Gaal, þjálfari Bayern eftir leikinn. "Við munum leyfa þeim að ná sér niður, slappa af og njóta þessa sigurs," sagði Hollendingurinn.
Bayern lenti undir gegn gangi leiksins en svaraði með fjórum mörkum. „Ég var meira að segja hissa á þessum yfirburðum. Við yfirspiluðum Juventus frá byrjun og sköpuðum endalaust mikið af færum," sagði Louis Van Gaal stoltur á blaðamannafundi eftir leikinn.
„Það voru allir okkar leikmenn að spila frábærlega og við tókum stórt skref fram á við í kvöld. Það er mjög mikilvægt fyrir félagið að komast í næstu umferð í Meistaradeildinni," sagði Louis Van Gaal en Bayern reis aftur upp frá dauðum í Meistaradeildinni með því að vinna tvo síðustu leiki sína.
„Við erum líka búnir að koma til baka í Bundesligunni. Ef við náum að vinna Bochum og Hertha þá getum við verið mjög sáttir með fyrri hlutann," sagði Van Gaal.
Fótbolti