Handbolti

Óskar Bjarni: Virkilega ánægður með Elvar

Elvar Geir Magnússon skrifar

Valsmenn komust auðveldlega í undanúrslit bikarsins með því að leggja Fram með ellefu marka mun í kvöld. Jafnræði var með liðunum í byrjun en svo stakk Valur af.

„Þetta var ströggl í byrjun og það var ekki sami neisti og gegn Haukum og HK. Það þarf aðeins að skerpa á vörninni en á móti kemur að við vorum að hitta rosalega vel í sókninni. Sóknarnýtingin okkar var mun betri en áður," sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, eftir leik.

Í fyrri hálfleik náði Valur að breyta stöðunni úr 7-7 yfir í 15-8. „Þeir hefðu þurft að ná að stöðva skytturnar okkar meira og um leið og við komumst einhverjum fjórum mörkum yfir varð þetta erfitt fyrir þá. Þetta Framlið er vængbrotið og þessi kafli reyndist banabiti þeirra," sagði Óskar.

Hann hrósaði Elvari Friðrikssyni sérstaklega eftir leik. „Hann hefur átt mikið inni í vetur og ég er virkilega ánægður með að hann sé að komast í gang. Svo var ég ánægður með Gunnar Harðarson sem kom gríðarsterkur inn í vörnina. Hann hefur oft reynst okkur vel og var mikilvægur eftir að Ingvar fékk rautt."

„Á heildina litið er ég mjög ánægður með þetta. Við gátum leyft okkur að hvíla Erni sem er tæpur. Þetta var góður sigur. Það væri algjör draumur að komast í Höllina þriðja árið í röð og ég vona innilega að það gerist," sagði Óskar.

Ekki verða birt viðtöl við Framara en þeir neituðu að ræða við blaðamann Vísis og Fréttablaðsins eftir leik.




Tengdar fréttir

Umfjöllun: Valssigur í óspennandi bikarslag

Skemmtanagildið var ekki hátt á Hlíðarenda í kvöld þegar Reykjavíkurliðin Valur og Fram mættust. Þessi lið hafa lengi eldað grátt silfur saman en leikurinn í kvöld var óspennandi og hreinlega leiðinlegur áhorfs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×