Handbolti

Ís­land - Ís­rael: Að­gengi fjöl­miðla að ís­lenska liðinu til skoðunar

Aron Guðmundsson skrifar
Róbert Geir Gíslason er framkvæmdastjóri HSÍ
Róbert Geir Gíslason er framkvæmdastjóri HSÍ Vísir/Samsett mynd

Síðar í dag ræðst það hvort fjölmiðlar fái tækifæri til að ræða við leik­menn og þjálfara í ís­lenska kvenna­lands­liðinu í hand­bolta í að­draganda leikja við Ís­rael hér heima sem verða spilaðir fyrir luktum dyrum eftir ráð­leggingar frá em­bætti Ríkislög­reglu­stjóra.

Em­bætti Ríkislög­reglu­stjóra ráðlagði HSÍ að lands­leikir Ís­lands við Ís­rael yrðu spilaðir fyrir luktum dyrum þar sem upp­lýsingar væru til staðar um ólgu og hita í tengslum við leikina. Vegna þeirrar al­var­legu stöðu sem er fyrir botni Miðjarðar­hafs gerði greiningar­svið ríkislög­reglu­stjóra áhættu­greiningu í tengslum við leikina og var þetta niður­staðan.

Ísland mætir Ísrael í tveimur umspilsleikjum um laust sæti á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik sem haldið verður í Þýskalandi og Hollandi í lok árs. Leikirnir fara fram 9. og 10. apríl og verða báðir leiknir hér á landi.

Starfs­fólk HSÍ sat undir­búnings­fund í morgun þar sem að Róbert Geir Gísla­son, fram­kvæmda­stjóri HSÍ, sagði sam­bandið vera að vinda ofan af ákvörðun gær­dagsins.

„Við erum núna bara að undir­búa viðburðinn miðað við þær for­sendur,“ segir Róbert Geir í samtali við Vísi. „Vorum með undir­búnings­fund hér á skrif­stofunni í morgun með starfs­fólki og reynum að undir­búa þetta svo þetta verði sem allra best fyrir alla.“

Er em­bætti Ríkislög­reglu­stjóra með í þeim undir­búningi?

„Ríkislög­reglu­stjóri er áfram með aðkomu að málinu þar sem um er að ræða Ís­rael. Þetta er flókin skipu­lagning þegar um er að ræða þessa þjóð í augna­blikinu þannig við erum áfram í góðu sam­starfi og sam­tali við yfir­völd og Ríkislög­reglu­stjóra.“

Verður öryggis­gæsla fyrir utan höllina á meðan á leikjunum stendur?

„Ég geri ráð fyrir því að það verði mjög öflug gæsla í kringum vett­vanginn eins og hefði verið ef áhorf­endum hefði verið hleypt á leikinn. Það er svo sem ekki mikil breyting á því.“

Að­gengi fjölmiðla að leik­mönnum og þjálfurum ís­lenska liðsins í að­draganda leiksins hefur ekki verið neitt í að­draganda fyrri leiksins. Engir fjölmiðla­hittingar eins og hefur tíðkast fyrir fyrri leiki liðsins en ákvörðun um fram­haldið í þeim efnum liggur fyrir síðar í dag.

„Við tökum ákvörðun um það síðar í dag. Við gerum ráð fyrir því að fjölmiðlar fái að­gengi að liðinu að ein­hverju leiti já.“

Þá liggur það ekki fyrir hvort að meðlimum úr stuðnings­manna­sveitinni Sér­sveitin fái leyfi til þess að styðja við ís­lenska lands­liðið úr stúkunni.

„Endan­leg ákvörðun þess efnis hefur ekki verið tekin og því ótíma­bært að segja til um það. Þetta er náttúru­lega ákvörðun sem var tekin í gær og stuttur tími liðinn síðan þá. Núna erum við að fara yfir málið frá A-Ö og sjá hvað er fram­kvæman­legt og hvað ekki undir þessum kringumstæðum.“

Ekkert í að­draganda leiksins hafi kveikt á viðvörunar­bjöllum hjá starfs­fólki HSÍ í tengslum við leikinn se m og gefið þeim ástæðu til þess að ákvarða að skyn­sam­legt væri að leika fyrir luktum dyrum.

„Hugur okkar er því til að mynda í að skipu­leggja viðburði eins og hand­bolta­leiki. Hins vegar er það Ríkislög­reglu­stjóra og greiningar­deildinni að meta áhættur í þjóðfélaginu. Hvað sé ráðlagt og hvað ekki. Við höfum engar for­sendur til þess að hvorki efast eða meta hvort að þeirra ráð­leggingar séu réttar. Við höfum bara ekki færni í það eðli málsins sam­kvæmt. Við treystum bara þeirra mati og förum eftir því, enda ekki stætt á öðru.“

Eitt­hvað tekju­tap hlýst af því að leika fyrir luktum dyrum.

„Það hleypur á hundruðum þúsunda ef ekki milljónum. Það er um­ræða sem við munum þurfa að taka fyrir í kjölfarið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×