Aðalmeðferð fór fram í gær í máli Gunnars Viðars Árnasonar, sem ákærður er fyrir innflutning á um sex kílóum af amfetamíni hingað til lands.
Gunnar neitar alfarið sök í málinu.
Við aðalmeðferðina í gær dró saksóknari fram ýmis sönnunargögn sem áttu að sýna fram á sekt Gunnars í málinu. Meðal sönnunargagnanna eru upptökur af símtölum Gunnars við Hollendinga sem taldir eru hafa sent fíkniefnin hingað til lands. Amfetamínið barst hingað í hraðsendingu, sem Gunnar Viðar sótti.
Hollendingar þessir komu við sögu í risastóru fíkniefnamáli sem upp kom í Ekvador í vor, þegar lagt var hald á tugi tonna af kókaíni blönduðu við melassa, eins konar dökkt síróp, í 600 brúsum.
Gunnar Viðar neitar því hins vegar staðfastlega að vera sá sem heyrist í á upptökunum. Saksóknari hefur lagt fram gögn sem sýna eiga fram á annað.
Þrír menn sátu upphaflega í gæsluvarðhaldi grunaðir um tengsl við málið; Gunnar, Ársæll Snorrason og Sigurður Ólason.
Einungis Gunnar var ákærður. Ríkissaksóknari hefur enn til meðferðar önnur mál þeirra Ársæls og Sigurðar, og ekki er útilokað að þau leiði til ákæru.
