Viðskipti erlent

Ben Bernanke seðlabankastjóri Bandaríkjanna svarar þingnefnd: Fjárlagahalli ógnar stöðugleika

Ben Bernanke Seðlabankastjóri Bandaríkjanna segir ekki útilokað að lánakjör ríkisins versni til muna vegna hallareksturs.Fréttablaðið/AFP
Ben Bernanke Seðlabankastjóri Bandaríkjanna segir ekki útilokað að lánakjör ríkisins versni til muna vegna hallareksturs.Fréttablaðið/AFP

Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, varar við því að mikill fjárlagahalli í Bandaríkjunum geti ógnað stöðugleika í bandarísku efnahagslífi og leitt til þess að lánakjör hins opinbera versni til muna.

Seðlabankastjórinn, sem sat fyrir svörum hjá fjárlaganefnd bandaríska þingsins í vikunni, sagði uppkaup ríkisins á slæmum eignum banka og fjármálafyrirtækja eiga þar hlut að máli. Seðlabankinn geti ekki fjármagnað hítina til lengri tíma. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur sagt aðgerðina, sem Englandsbanki hefur sömuleiðis tekið upp, misráðna og bjóða hættunni heim.

Bloomberg-fréttastofan segir gert ráð fyrir því að halli á fjárlögum bandaríska ríkisins verði fjórfalt meiri á þessu ári en í fyrra. Munar þar mestu um aðgerðir stjórnvalda til að bæta eiginfjárgrunn stærstu banka Bandaríkjanna og koma í veg fyrir að þeir fari á hliðina.

Barack Obama, forseti landsins, hefur lagt upp með að skera fjárlagahallann niður um helming á kjörtímabili sínu, að sögn Bloomberg.

- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×