Innlent

Höskuldur: Atriði í skýrslunni sem vert er að kanna gaumgæfilega

Höskuldur Þórhallsson.
Höskuldur Þórhallsson.

Nefndarmenn í viðskiptanefnd Alþingis fengu í morgun hina umtöluðu evrópuskýrslu um fjármálalegan stöðugleika. Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að nú gefist mönnum ráðrúm til þess að kynna sér efni skýrslunnar en hann segist nú þegar hafa rekist á atriði sem vert væri að kanna gaumgæfilega hvort setja eigi í lög hér.

„Ég fór strax í það að skoða þann kafla skýrslunnar sem tekur á málefnum seðlabanka. Þar er einmitt minnst á mikilvægi þess að seðlabankar hafi skýrar heimildir til þess að vara við yfirvofandi krísuástandi," segir Höskuldur. Að hans mati er í raun fáránlegt að þess háttar heimild sé ekki til staðar í núverandi lögum um bankann.

„Ég held að það sé því afar brýnt að skoða það að koma þess háttar ákvæði inn í frumvarpið sem nú er í vinnslu þannig að bankanum verði í framtíðinni gert kleift að vara við á formlegan hátt ef hann telur hættuástand vera að skapast," segir Höskuldur og bendir á að þessháttar ákvæði hefði getað skipt miklu máli í aðdraganda efnahagshrunsins hér á haustmánuðum.

Höskuldur myndaði meirihluta með sjálfstæðismönnum í nefndinni á mánudag þannig að frumvarp um breytingar á Seðlabanka Íslands komst ekki úr nefndinni eins og stjórnarflokkarnir höfðu gert ráð fyrir. Það gerði hann vegna þess að honum fannst ráðlegt að bíða eftir skýrslunni og sjá hvort í henni leyndist eitthvað sem vert væri að hafa til hliðsjónar við breytingar á lögum um Seðlabankann.

Eins og áður segir gefst nefndarmönnum nú tækifæri til þess að fara yfir skýrsluna en Vísir hefur heimildir fyrir því að líklega verði boðað til annars fundar í nefndinni í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×