Innlent

Mikil óvissa um seðlabankafrumvarpið

Mikil óvissa ríkir um það hvort seðlabankafrumvarp forsætisráðherra fer í þriðju og síðustu umræðu á Alþingi í dag. Málið er komið á dagskrá Alþingis en situr engu að síður fast í viðskiptanefnd.

Til stóð að Alþingi myndi klára þriðju og síðustu umræðu um seðlabankafrumvarp forsætisráðherra í gær.

Málið var komið á dagskrá þingsins en Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, kom í veg fyrir að málið kæmist úr viðskiptanefnd. Vildi hann bíða með afgreiðslu málsins fram á miðvikudag.

Afstaða Höskuldar olli miklum vonbrigðum meðal forystumanna stjórnarflokkanna sem funduðu með framsóknarmönnum fram eftir degi í gær. Þurfti að fresta þingfundi þrisvar vegna málsins.

Frumvarpið var sett aftur á dagskrá Alþingis í dag þrátt fyrir að það sé ekki komið úr viðskiptanefnd.

Nefndin fundaði í morgun en seðlabankafrumvarpið kom þá ekki til umræðu. Höskuldur mætti ekki á fundinn.

Ekki liggur fyrir hvort málinu verði frestað á ný en stjórnarflokkarnir leggja mikla áherslu á að það verði afgreitt sem fyrst.

Tveir möguleikar eru í stöðunni til að hægt verði að klára málið í dag. Annars vegar að viðskiptanefnd fundi aftur og afgreiði málið úr nefnd. Þá getur meirihluti þings kallað eftir frumvarpinu úr viðskiptanefnd.

Að loknum fundi viðskiptanefndar í morgun áskildi formaður nefndarinnar sér þann rétt að kalla aftur til fundar í dag með stuttum fyrirvara.

Því er ekki útilokað að Alþingi klári málið í dag.




Tengdar fréttir

Seðlabankinn á dagskrá Alþingis en ekki í viðskiptanefnd

Þriðja og síðasta umræðan um seðlabankafrumvarpið á að fara fram á Alþingi í dag. Þrátt fyrir það er frumvarpið ekki á dagskrá fundar viðskiptanefndar sem hófst klukkan hálf níu. ,,Þetta mál er ekki á dagskrá viðskiptanefndar," segir Álfheiður Ingadóttir formaður nefndarinnar. Hún útilokar þó ekki að einhver nefndarmanna taki málið upp undir liðnum önnur mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×