Innlent

Framsóknarmenn klofnir í Seðlabankamáli

Birkir Jón og Höskuldur.
Birkir Jón og Höskuldur.

 

Viðskiptanefnd náði ekki ljúka umfjöllun sinni um Seðlabankafrumvarpið á fundi sínum í morgun en til stóð að þriðja umræða um málið hæfist í dag. Fulltrúar Framsóknarflokksins í nefndinni, þeir Birkir Jón Jónsson og Höskuldur Þórhallsson, klofnuðu í afstöðu sinni. Birkir Jón greiddi atkvæði með tillögu ríkisstjórnarflokkanna um að afgreiða málið úr nefnd en það gerði Höskuldur ekki.

Höskuldur greiddi atkvæði með tillögu minnihluta nefndarinnar sem gengur út á að málið bíði í nefndinni uns nefnd á vegum Evrópusambandsins hefur sett fram tillögur um eftirlitsaðila á fjármálamarkaði. Búist er við að þær tillögur líti dagsins ljós á miðvikudaginn kemur.

,,Þess vegna fannst okkur borðleggjandi að bíða og sjá hvað nefndin hefði að segja," sagði Birgir Ármannsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við fréttastofa. ,,Þetta er þungavigtarnefnd. Formaður hennar er fyrrverandi forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins."

,,Okkar upplýsingar herma að seðlabankar og staða þeirra sé mjög þarna í forgrunni," segir Birgir um tillögur ESB-nefndarinnar.

Birgir segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi frá upphafi sagt að nálgunin í frumvarpinu væri of þröng. ,,Það væri verið að einblína á skipuritið en ekki aðrar lagabreytingar sem gætu verið til þess fallnar að styrkja Seðlabankann sem eftirlitsaðila."

 

Ekki náðist í Álfheiði Ingadóttur, formann viðskipanefndar, né Birki Jón eða Höskuld.


Tengdar fréttir

Seðlabankafrumvarpið enn til umræðu

Þriðja og síðasta umræðan um Seðlabankafrumvarpið fer fram á Alþingi á dag. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagðist í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær reikna með því að Alþingi samþykki ný lög um Seðlabanka Íslands á allra næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×