Wolfsburg vann í dag 2-1 sigur á Bayer Leverkusen í þýsku úrvalsdeildinni en það var tíundi sigur liðsins í röð á tímabilinu.
Þar með jafnaði Wolfsburg rúmlega 20 ára gamalt met Borussia Möngchengladbach sem vann einnig tíu sigra í röð árið 1987.
Bayern München hefur þó unnið flesta leiki í röð, fimmtán talsins, en yfir tvö tímabil frá mars til september árið 2005.
Wolfsburg er með þriggja stiga forystu á Bayern á toppi deildarinnar. Bayern vann 1-0 sigur á Bielefeld á útivelli í dag.
Stuttgart er svo í þriðja sæti með 51 stig, rétt eins og Hamburg. Síðarnefnda liðið á þó leik til góða.
Spútnikliðið Hoffenheim er dottið niður í áttunda sæti deildarinnar en liðið gerði 2-2 jafntefli við botnlið Karlsruhe í dag.

