Handbolti

Íslendingaslagur í undanúrslitunum í Svíþjóð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hreiðar Guðmundsson, leikmaður Sävehof.
Hreiðar Guðmundsson, leikmaður Sävehof.

Nú er það ljóst að það verður Íslendingaslagur í undanúrslitum úrslitakeppni sænsku úrvalsdeildairnnar í handbolta þar sem Sävehof og Guif munu mætast.

Fjórðungsúrslitunum lauk í gær með sigri Alingsås á Lindesberg í oddaviðureign liðanna. Fyrrnefnda liðið vann, 3-2.

Þau lið sem komust áfram í undanúrslitin voru deildarmeistarar Sävehof, Alingsås (2. sæti), Guif (3. sæti) og Hammarby (5. sæti).

Þjálfari Guif er Kristján Andrésson, fyrrum Ólympíufari með íslenska landsliðinu, og bróðir hans, Haukur, leikur með liðinu. Árangurinn hjá Guif í ár er sá besti sem liðið hefur náð undir stjórn Kristjáns.

Fyrirkomulagið í sænsku úrslitakeppninni er með þeim hætti að eftir leikinn í gær mátti Rustan Lundbäck, þjálfari Sävehof, velja andstæðing liðsins í undanúrslitunum. Valið stóð á milli Guif og Hammarby og valdi hann að mæta fyrrnefnda liðinu.

Alingsås og Hammarby mætast því í hinni undanúrslitaviðureigninni.

Hreiðar Guðmundsson, markvörður, er leikmaður Sävehof. Undanúrslitin hefjast 19. apríl næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×