Jose Mourinho er vongóður um að hann geti fengið landa sinn Ricardo Carvalho til að koma til ítalska liðsins frá Chelsea. Mourinho fékk Carvalho á sínum tíma frá Porto til Chelsea.
Carvalho neitaði í gær öllum sögusögnum um að hann væri á förum frá enska úrvalsdeildarliðinu en Mourinho er ekki búinn að gefast upp.
„Carvalho er einn af bestu miðvörðum í heimi," sagði Mourinho í viðtali við La Gazzetta dello Sport. „Það var ómögulegt að fá hann til að koma í fyrrasumar en nú tel ég að það sé möguleiki," bætti Mourinho við.
Mourinho gerði Inter að ítölskum meisturum á sínu fyrsta tímabili alveg eins og hann afrekaði með Porto í heimalandinu Portúgal og með Chelsea á Englandi.
Mourinho talaði einnig um að Inter væri áhugasamt á að næla í 20 ára kantmann hollenska liðsins Twente Enschede en sá heitir Marko Arnautovic og er Austurríkismaður.