Fótbolti

Neuer meiddist við að fagna marki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manuel Neuer er hér sestur meiddur í grasið í leik Bayern München og Bayer 04 Leverkusen í Meistaradeildinni á miðvikudagskvöldið.
Manuel Neuer er hér sestur meiddur í grasið í leik Bayern München og Bayer 04 Leverkusen í Meistaradeildinni á miðvikudagskvöldið. AP/Sven Hoppe

Það var ekki eintóm gleði hjá Bayern München í gær þrátt fyrir 3-0 sigur á Bayer Leverkusen í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Svo óheppilega vildi til að markverðinum Manuel Neuer tókst að meiða sig við að fagna marki liðsins.

Neuer meiddist illa á kálfa við að fagna marki Jamal Musiala sem hafðði komið Bæjurum tveimur mörkum yfir í leiknum.

Hinn 38 ára gamli Neuer varð því að fara af velli á 58. mínútu og inn á fyrir hann kom Jonas Urbig og spilaði sinn fyrsta leik fyrir Bayern.

Bayern staðfesti í dag að Neuer hafi slitið vöðva í hægri kálfa og að hann muni missa af seinni leik liðanna í næstu viku. Það er hætt við að hann verði frá í nokkrar viku vegna þessara klaufalegu meiðsla.

Neuer missti úr þrjá deildarleiki og einn Meistaradeildarleik í desember vegna rifbeinsmeiðsla en hefur alls spilað 33 leiki á tímabilinu þarf af tíu í Meistaradeildinni.

Í þessum tíu Meistaradeildarleikjum hefur hann fengið á sig ellefu mörk og haldið fjórum sinnum markinu hreinu.

Neuer hefur síðan haldið ellefu sinnum hreinu í tuttugu leikjum í þýsku deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×