Innlent

Keypti vörubíla fyrir gróða af fíkniefnum

Stígur Helgason skrifar
Sigurður var handtekinn á skrifstofu sinni í fyrirtækinu R. Sigmundssyni á mánudag. Hann sat þar í stjórn.
Sigurður var handtekinn á skrifstofu sinni í fyrirtækinu R. Sigmundssyni á mánudag. Hann sat þar í stjórn.
Sigurður Ólason, sem situr í gæsluvarðhaldi grunaður um að tengjast alþjóðlegum glæpahring, stofnaði í janúar fyrirtækið Hollís ásamt Hollendingi og Ísraela. Hann hefur síðan, í gegnum félagið, oftsinnis tekið á móti peningum frá mönnunum tveimur. Talið er að peningunum hafi verið varið til kaupa á vörubílum og vinnuvélum, og að um peningaþvætti vegna fíkniefnaviðskipta sé að ræða.

Ísraelinn, Erez Zizov, og Hollendingurinn, Ronny Verwoerd, hafa báðir verið handteknir á meginlandi Evrópu vegna málsins.

Ársæll Snorrason, vinur Sigurðar til fjölda ára, situr einnig í varðhaldi vegna málsins og er samkvæmt heimildum Fréttablaðsins talinn vera tenging Sigurðar við mennina tvo. Hann hafi kynnst Hollendingnum þegar hann sat í fangelsi í Hollandi vegna fíkniefnasmygls fyrir nokkrum árum.

Lögreglan hefur hlerað síma sakborninga í málinu um langt skeið, að því er heimildir blaðsins herma.

Sigurður, sem er 54 ára, var handtekinn á skrifstofu sinni í fyrir­tækinu R. Sigmundsson á mánudag. Hann er í stjórn félagsins og hefur þar aðsetur. Sigurður hlaut þriggja ára fangelsisdóm árið 2001 fyrir aðild sína að smygli á þrjátíu kílóum af hassi til landsins.

Þá er Sigurður skráður eigandi að minnst sextán öðrum fyrirtækjum, sem flest eru til heimilis að Suðurlandsbraut 6, eins og Hollís, eða að Tjaldanesi, heimili Sigurðar.

Sigurður er skráður stjórnarmaður í flestum fyrirtækjunum, prókúruhafi í stórum hluta þeirra og framkvæmdastjóri nokkurra. Hann hefur einnig verið skráður eigandi fjölda annarra fyrirtækja undanfarin ár sem nú hafa verið afskráð. Hann tengist enn fleiri fyrirtækjum sem stjórnarmaður, stofnandi og skráður endurskoðandi.

Sigurður, eða félög honum tengd, á tugi fasteigna í borginni. Sola Capital á til dæmis um tuttugu fasteignir og Funahöfði ehf. um tíu. Sigurður á meðal annars helmingshlut í Austurstræti 3, þar sem skyndibitastaðurinn Subway er til húsa. Hann keypti húsnæðið af Ásgeiri Þór Davíðssyni, kenndum við Goldfinger, árið 2007.

Einn til viðbótar er í varðhaldi vegna málsins. Sá heitir Gunnar Viðar Árnason og var handtekinn 22. maí eftir að nokkur kíló af hörðum fíkniefnum fundust í hraðsendingu, en sá fundur hratt málinu af stað. Zizov og Verwoerd eru taldir tengjast því smygli.

Í nóvember 2007 kom upp eldur í tvílyftu timburhúsi við Grettisgötu. Engan sakaði í brunanum en rýma þurfti fjölda húsa í grenndinni. Húsið var í eigu Sigurðar.

Fram kom í fréttum í kjölfarið að mikið ónæði hefði verið af fólki sem hafst hefði við í húsinu. Það hefði verið í mikilli óreglu og ítrekað hefðu komið upp mál vegna fíkniefnabrota og þýfi og vopn gerð upptæk. Ekki var útilokað að um íkveikju hefði verið að ræða.

Í samtali við Vísi.is daginn eftir brunann sagðist Sigurður upphaflega hafa leyft óreglufólkinu að hafast við í húsinu gegn smávægilegri greiðslu, en síðan rekið það á dyr. Eftir það hafi hann og menn á hans vegum vaktað húsið og séð til þess að þar væri enginn. Spurður hvort hugsanlega hafi verið kveikt í húsinu vegna fíkniefnauppgjörs sagðist Sigurður ekki geta sagt til um það.


Tengdar fréttir

Bruninn á Grettisgötu: Eigandinn vaktaði húsið

Sigurður Ólason eigandi Grettisgötu 61 sem kviknaði í í nótt segist sjálfur hafa vaktað húsið í vikunni. Hann sagði i leigjendum upp um mánaðarmótin og enginn hefur verið í húsinu síðan um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×