Erlent

Stærsta fölsunarmál innflytjendapappíra í sögu Bretlands

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Þrír Indverjar eru nú fyrir rétti í Bretlandi, ákærðir fyrir að falsa hundruð umsókna um vegabréfsáritanir og selja ólöglegum innflytjendum. Er hér um að ræða umfangsmesta fölsunarmál slíkra pappíra í sögu Bretlands.

Gögnin voru slík dvergasmíð og svo til þeirra vandað að starfsmenn breska útlendingaeftirlitsins stimpluðu pappírana í flestum tilfellum án þess að hugsa sig tvisvar um. Falsararnir, sem vitaskuld eru sjálfir ólöglegir innflytjendur, voru svo sannfærðir um ágæti verka sinna að þeir buðu viðskiptavinum sínum hiklaust þá neytendavernd að þeir þyrftu ekkert að greiða fyrir pappírana fengju þeir ekki dvalarleyfi í Bretlandi út á þá.

Starfsemin hafði staðið í 18 mánuði og samþykktar umsóknir orðnar nær þúsund. Umsækjendur, sem aldrei höfðu lokið öðru en barnaskóla, birtust hjá útlendingaeftirlitinu með heilu meistara- og doktorsgráðurnar á pappírum sem ekkert var athugavert við.

Eitthvað misritaðist þó að lokum og þegar lögreglan ruddist inn til þremenninganna fann hún þar um það bil 90.000 blaðsíður af skjölum og 980 tilbúnar umsóknir. Þeir eru nú í dómsalnum en ættu ef til vill frekar að starfa sem sérfræðingar í fölsunarmálum hjá útlendingaeftirlitinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×