Erlent

Gluggalausar þotur og gæsaflug

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Verður þetta framtíðarfyrirkomulagið í farþegaflugi?
Verður þetta framtíðarfyrirkomulagið í farþegaflugi?

Airbus-verksmiðjurnar standa nú fyrir hugmyndasamkeppni um farþegaflugvélar framtíðarinnar meðal verk- og tæknifræðinema í 82 löndum. Rúmlega 2.300 nemendur hafa skilað inn tillögum og eru verðlaunin ekki af verri endanum - 30.000 evrur. Upphæð sem kæmi sér sennilega ágætlega fyrir flesta eins og staðan er nú.

Nemendur háskóla nokkurs á Spáni þykja sigurstranglegir en hugmynd þeirra gengur út á gluggalausa háhraðaþotu. Útsýnið verður takmarkað fyrir farþegana, reyndar ekki neitt, en þetta fyrirkomulag telja keppendurnir hagkvæmt þar sem með gluggaleysinu megi draga mjög úr loftmótstöðu og þar með spara eldsneyti.

Hópur frá háskóla í Queensland í Ástralíu stingur upp á flugvélaskrokki úr náttúrulegum trefjum en Tékkar vilja rafmagnsþotu - allt fyrir umhverfið. Mesta athygli hefur þó tillaga nemenda við Stanford-háskóla vakið en þeir vilja lítið breyta flugvélunum sjálfum. Hins vegar vilja þeir að þær fljúgi nokkrar saman í oddaflugi líkt og gæsir en þar með notfæri aftari vélarnar sér kjalsog þeirrar fremstu og spari eldsneyti á meðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×