Innlent

Jóhanna ætlar ekki að víkja Anne

Mynd/GVA
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, ætlar ekki að víkja breska hagfræðingnum Anne Sibert úr peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands vegna greinar sem hún skrifaði nýverið á vefritið Vo.Eu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, spurði Jóhönnu út í málið við upphaf þingfundar í dag. Hann sagði að umrædd grein gangi út að Ísland sé ekki of lítið til að borga allar kröfur Breta og Hollendinga í Icesavedeilunni. Því væri eðlilegt að Anne myndi víkja úr nefndinni.

Sigmundur sagði að tímasetning greinarinnar væri afar skaðleg og tilgangur hennar óljós. Hann benti á að Anne væri á launum hjá íslenskum skattgreiðendum við það að gæta hagsmuna Íslendinga og þar á meðal að verja íslensku krónuna. Ekkert verra væri fyrir íslensku krónuna en skuldsetning í erlendri mynt. Sigmundur spurði því Jóhönnu hvort hún ætlaði ekki að víkja Anne úr nefndinni.

Jóhanna sagðist ekki hafa séð greinina. Hún væri þó sammála að það væri ákaflega mikilvægt að menn færu varlega í yfirlýsingar varðandi samskipti Íslendinga við Breta og Hollendinga. Jóhanna tók undir með Sigmundi og sagði að ummæli Anne væru afar óheppileg. Aftur á móti starfi peningastefnunefnd og Seðlabankinn sjálfstætt. Það væri því ekki í hennar verkahring að víkja Anne úr nefndinni.

Anne er doktor í hagfræði og prófessor við Birkbeck College University of London. Hún er einn af fimm nefndarmönnum í peningastefnunefnd Seðlabankans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×