Fótbolti

Gareth Barry með á æfingu enska landsliðsins í morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Barry í Suður-Afríku með Liverpool-mönnunum Steven Gerrard og Jamie Carragher.
Gareth Barry í Suður-Afríku með Liverpool-mönnunum Steven Gerrard og Jamie Carragher. Mynd/AFP

Það eru góðar fréttir af Gareth Barry, miðjumanni enska landsliðsins, eftir að hann tók þátt í æfingu enska landsliðsins í Suður-Afríku í morgun. Barry var valinn í HM-hópinn eftir að hafa staðist læknisskoðun á síðustu stundu.

Gareth Barry meiddist á ökkla í leik með Manchester City á móti Tottenham 5. maí síðastliðinn og hefur síðan verið í kapphlaupi við tímann sem hann virðist nú hafa unnið.

Æfingin í morgun tók bara fimmtán mínútur og álagið var því ekki mikið á Barry en það var engu að síður mikilvægt skref fyrir hann að vera með öðrum leikmönnum liðsins á æfingunni.

Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englendinga, hefur ekki farið leynt með mikilvægi Gareth Barry fyrir enska liðið en Barry hafði byrjað 19 af 22 leikjum undir stjórn Ítalans áður en hann meiddist.

Markvörðurinn David James tók ekki þátt í æfingunni en Ledley King var með og þá aðstoðaði David Beckham einnig Capello á æfingunni.

England spilar fyrsta leikinn sinn á HM á móti Bandaríkjunum 12. júní næstkomandi en Slóvenía og Alsír eru einnig með Englandi í riðli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×