Körfubolti

NBA: Cleveland og Los Angeles Lakers töpuðu bæði í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant og Russell Westbrook fagna sögulegum sigri í nótt.
Kevin Durant og Russell Westbrook fagna sögulegum sigri í nótt. Mynd/AP

Oklahoma City Thunder og Chicago Bulls minnkuðu bæði muninn í 2-1 í einvígum sínum á móti bestu liðum Austur- og Vesturdeildarinnar, Cleveland Cavaliers og Los Angeles Lakers, í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt. Phoenix Suns vann síðan sinn annan leik í röð og komst í 2-1 á móti Portland.

Kevin Durant var með 29 stig og 19 fráköst þegar Oklahoma City Thunder vann 101-96 á Los Angeles Lakers í fyrsta leik í úrslitakeppni sem fer fram í Oklahoma City.

Durant og Russell Westbrook skoruðu saman 22 af 23 síðustu stigum Thunder-liðsins í leiknum. Westbrook var með 27 stig í leiknum. Kobe Bryant skoraði 24 stig og gaf 8 stoðsendingar hjá Lakers en Pau Gasol var með 17 stig og 15 fráköst.

Derrick Rose skoraði 31 stig og Kirk Hinrich var með 27 stig þegar Chicago Bulls vann 108-106 sigur á Cleveland Cavaliers. Bulls var nærri búið að missa niður 21 stigs forskot í lokin en LeBron James skoraði 13 af 39 stigum sínum í fjórða leikhluta.

James var einnig með 10 fráköst og 8 stoðsendingar en það dugði ekki til. Shaquille O'Neal skoraði bara 6 stig í leiknum og klikkaði á 6 af 8 skotum sínum.

Jason Richardson setti nýtt persónulegt met með því að skora 42 stig þegar Phoenix Suns vann 108-89 sigur á Portland Trail Blazers. Portland vann fyrsta leikinn í Phoenix en síðan hefur Suns-liðið svarað með tveimur öruggum sigrum.

Amare Stoudemire var með 20 stig hjá Phoenix og Steve Nash bætti við 13 stigum og 10 stoðsendingum. LaMarcus Aldridge skoraði mest fyrir Portland eða 17 stig.



Úrslitin i nótt, staðan í einvígunum og næsti leikur:


Chicago Bulls-Cleveland Cavaliers 108-106

(Staðan er 1-2, næsti leikur í Chicago á sunnudaginn)

Oklahoma City Thunder-Los Angeles Lakers 101-96

(Staðan er 1-2, næsti leikur í Oklahoma City á morgun)

Portland Trail Blazers-Phoenix Suns 89-108

(Staðan er 1-2, næsti leikur í Portland á morgun)



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×