Hollenska liðið AZ Alkmaar virðist hafa rétt úr kútnum eftir erfiða byrjun í hollensku úrvalsdeildinni en Íslendingar voru víða í eldlínunni í evrópsku knattspyrnunni í gær.
AZ vann 1-0 sigur á Utrecht en þetta var annar sigur liðsins í röð. AZ hafði fyrir þessa tvo leiki ekki unnið í fyrstu fimm umferðum deildarinnar í haust.
Jóhann Berg Guðmundsson og Kolbeinn Sigþórsson voru báðir í byrjunarliði AZ í gær. Kolbeinn lék allan leikinn en Jóhann var tekinn af velli í blálok leiksins.
Báðir léku þeir í þriggja manna sóknarlínu, Jóhann Berg hægra megin og Kolbeinn vinstra megin.
AZ kom sér upp í níunda sæti deildarinnar með sigrinum en er átta stigum á eftir toppliði Ajax sem er enn taplaust eftir sjö umferðir.
Í Skotlandi spilaði Eggert Gunnþór Jónsson allan leikinn sem miðvörður er lið hans, Hearts, tapaði fyrir Motherwell á heimavelli, 2-0.
Motherwell komst þar með upp í þriðja sæti deildarinnar á kostnað Hearts sem er í fjórða sæti.
Celtic og Rangers eru enn með fullt hús stiga á toppi deildarinnar, Celtic eftir sex leiki og Rangers eftir fimm.
FC Kaupmannahöfn, lið Sölva Geirs Ottsen, er taplaust á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar en liðið vann 3-0 sigur á Midtjylland á útivelli í gær. Sölvi Geir er þó frá vegna meiðsla.
SönderjyskE vann góðan sigur á Álaborg á útivelli, 2-0. Ólafur Ingi Skúlason lék allan leikinn á miðju liðsins í gær en Arnar Darri Pétursson, markvörður, var á bekknum.
SönderjyskE er nú í fimmta sæti deildarinnar með þrettán stig eftir tíu leiki. FCK er langefst á toppnum með 26 stig.
