Innlent

Ríkisendurskoðun fer yfir alla samningana

Sveinn Arason
Sveinn Arason

Ríkisendurskoðun hefur kallað eftir öllum skuldbindandi samningum ráðuneytanna til endurskoðunar. Er þar miðað við alla núgildandi samninga sem útlistaðir eru í fjárlagafrumvarpinu 2011 en eru þeir 141 talsins.

Ríkisendurskoðun óskaði eftir samningunum við ráðuneytin í kjölfar úttektar á þjónustusamningi mennta- og menningarmálaráðuneytisins við Hraðbraut ehf. sem rekur Menntaskólann Hraðbraut. Niðurstöður Ríkisendurskoðunar leiddu í ljós að ráðuneytið hefði ekki haft stoð í lögum til að gefa eftir skuld skólans við ríkissjóð sem nam 126,1 milljón króna, vegna ofgreiddra framlaga á árunum 2004 til 2006. Kemur þetta einnig fram í nýrri skýrslu menntamálanefndar Alþingis um skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Í lok nóvember óskaði Ríkis­endur­skoðun eftir öllum samningum hins opinbera við meðferðarheimili og upplýsingum um uppsögn þeirra í kjölfar fréttaflutnings af málefnum meðferðar­heimilisins Árbótar.

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi segir stofnunina hafa óskað eftir öllum upplýsingum um alla gildandi samninga ráðuneytanna tólf og slíkt sé eðlilegt í ljósi þeirra mála sem upp hafi komið núverið.

„Það er nauðsynlegt að sjá hvernig menn standa sig gagnvart þessum samningum innan ráðuneytanna," segir Sveinn.

Ríkisendurskoðun hefur nú þegar fengið eitthvað af samningum frá ráðuneytunum en Sveinn vildi ekki segja til um hversu mikið magn væri komið í hús né hvaða ráðuneyti hefðu skilað inn.

„Við byrjum á fullum krafti á þessu verkefni upp úr áramótum þegar við erum búin að fá alla samningana."

Mennta- og menningarmálaráðuneytið óskaði eftir úttekt Ríkisendurskoðunar á framkvæmd þjónustusamningsins við Hraðbraut hinn 29. júní síðastliðinn og var skýrsla birt um úttektina rúmum tveimur mánuðum síðar, í september. Sveinn segir ólíklegt að það taki Ríkisendurskoðun svo langan tíma að fara yfir rúmlega 140 samninga.

„Þetta þarf ekki að taka jafn langan tíma og Hraðbrautarmálið gerði," segir hann. „Það er alltaf spurning um það hvernig við förum ofan í hvern og einn samning."

sunna@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×