Írski kylfingurinn Padraig Harrington batt enda á tveggja ára sigurleysi með sigri í Malasíu í dag. Þessi þrefaldi risameistari vann Iskandar Johor Open mótið nokkuð örugglega og var þremur höggum á undan næsta kylfingi.
„Tvö ár er langur tími í atvinnugolfinu, sérstaklega þegar þú leikur nánast um hverja helgi. Það var mikilvægt fyrir mig að ná sigri," segir Harrington sem var í sigurliði Evrópu í Ryder-bikarnum í upphafi mánaðarins.
Mótið er öllu lakara en Harrington er vanur að keppa á en nokkrir sterkir kylfingar voru þó með í mótinu. Ungur og efnilegur kylfingur frá Suður Kóreu, Noh Seung-yul, varð annar eftir góðan lokahring.