Innlent

Sjö hvolpar til fíkniefnaleitar

Þeirra bíður nú hefðbundið uppeldi en fylgst verður gaumgæfilega með þeim til að athuga hvað í þeim býr.
Þeirra bíður nú hefðbundið uppeldi en fylgst verður gaumgæfilega með þeim til að athuga hvað í þeim býr.

Lögregluyfirvöld og tollgæsla hafa nú stigið fyrsta skrefið í ræktun eigin fíkniefnaleitarhunda hér á landi. Til þessa hafa hundar úr viðurkenndum ræktunum verið fluttir frá útlöndum með verulegum tilkostnaði. Þeir hafa verið þjálfaðir hér á landi.

Það er embætti ríkislögreglustjóra, í samvinnu við lögreglustjórann á Suðurnesjum og Tollgæsluna, sem stendur að þessari ræktun. Hún felst í því að fíkniefnaleitarhundarnir Ella og Nelson voru paraðir saman í apríl. Hundarnir eru báðir af labrador-kyni og hafa verið í þjónustu lögreglu og tollgæslu í mörg ár.

Árangurinn af pöruninni er sjö hvolpar sem nú eru orðnir liðlega átta vikna gamlir. Á næstu dögum verður hvolpunum komið fyrir á heimilum þar sem þeir fá hefðbundið uppeldi. Yfirþjálfarar lögreglu og tollgæslu fylgjast með hvolpunum með reglubundnum hætti en þegar þeir hafa náð tilskyldum aldri og þroska tekur við krefjandi þjálfun þar sem gert er ráð fyrir að þeir hæfustu verði komnir í þjónustu embættanna innan tveggja ára.

Lögregla og tollgæsla nota hunda sér til aðstoðar við löggæslustörf, þar sem þeir koma að góðum notum. - jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×