Fótbolti

Maradona: Vorum vonandi að spara mörkin fyrir Kóreu-leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Maradona, þjálfari Argentínu, fagnar sigri í dag.
Diego Maradona, þjálfari Argentínu, fagnar sigri í dag. Mynd/AP
Diego Maradona, þjálfari Argentínu, var nokkuð ánægður með frammistöðu sinna manna í 1-0 sigri á Nígeríu í fyrsta leik liðsins á HM í Suður-Afríku í dag. Hann talaði um að það eina sem vantaði virkilega var að nýta færin og skora fleiri mörk.

„Það var stundum eins og mínir menn sæu ekki markið. Við megum ekki sýna mótherjum okkar neina miskunn og ég sagði leikmönnunum mínum það eftir leikinn. Í fótbolta þá er þér refsað fyrir að sýna mótherjanum miskunn," sagði Diego Maradona.

„Við tókum mikilvægt skref í dag en við þurfum að laga marga hluti ef við ætlum að komast í sjöunda leik. Engu að síður þá stóðu strákarnir sig vel," sagði Maradona.

Maradona hrósaði mikið Vincent Enyeama, markverði Nígeríu, sem varði hvað eftir annað frábærlega í markinu aðallega frá Lionel Messi og Gonzalo Higuain.

„Það reynir enginn að klikka á færum. Við skulum bara vona að við höfum bara verið að spara mörkin fyrir leikinn á móti Suður-Kóreu," sagði Maradona.

Maradona var mjög ánægður með frammistöðu Lionel Messi þrátt fyrir að Messi hafi ekki náð að skora úr fjölda færa. Eftir leikinn faðmaði Maradona Messi og lyfti honum upp.

„Ég vil að Messi sé alltaf svona nálægt boltanum og hann var í þessum leik. Hann gerði frábæra hluti í dag," sagði Maradona.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×