Fótbolti

Ronaldinho fer frá AC Milan í janúar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Það lítur út fyrir að Brasilíumaðurinn Ronaldinho sé á leið frá AC Milan þar sem hann hefur lítið fengið að spila að undanförnu.

Ronaldinho er þrítugur og kom til AC Milan frá Barcelona árið 2008. Massimiliano Allegri, stjóri Milan, hefur lítið vilja nota hann og eftir að félagið samdi við Antonio Cassano er útlit fyrir að krafta Ronaldinho verði ekki lengur þörf.

Umboðsmaður Ronaldinho og bróðir hans, Roberto de Assis, fundaði með Adriano Galliani, varaforseta AC Milan í dag. Niðurstaða fundarins mun vera sú að félagið muni selja Ronaldinho, berist ásættanlegt tilboð í hann, eftir því sem fram hefur komið í ítölskum fjölmiðlum í dag.

Ronaldinho hefur helst verið orðaður við sitt gamla félag í Brasilíu, Gremio, en þaðan fór hann til Paris St. Germain árið 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×