Innlent

Kynjahlutfall veikir stöðu Jóns Bjarnasonar

Stjórnarráð Íslands í Lækjargötu 1. des
Stjórnarráð Íslands í Lækjargötu 1. des
Hver mun yfirgefa ríkisstjórnina í næstu sameiningu ráðuneyta?

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra mun í dag kynna tvö ný ráðuneyti í ríkisstjórn sinni.

Um áramót verður til annars vegar nýtt innanríkisráðuneyti, með sameiningu dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, og hins vegar nýtt velferðarráðuneyti með sameiningu félags- og tryggingarmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis.

Þessi breyting hefur legið lengi í loftinu og þykir ljóst að Ögmundur Jónasson mun verða innanríkis­ráðherra og Guðbjartur Hannes­son verður velferðarráðherra. Hins vegar er frekari breytinga að vænta í vor þar sem fyrirhugað er að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðar­ráðuneyti og iðnaðarráðuneyti í atvinnuvegaráðuneyti. Á sama tíma verður umhverfisráðuneyti breytt í umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Meirihluti allsherjarnefndar Alþingis ákvað í haust, þegar sameiningar ráðuneyta voru ræddar, að bíða með tvær síðastnefndu breytingarnar þar sem þörf væri á lengra samráðsferli hvað varðar atvinnuvegaráðuneytið.

Þó að enn sé óvíst hverjir muni stýra þeim ráðuneytum er ljóst að í það minnsta einn af núverandi ráðherrum mun víkja úr stjórninni.

Nema til komi meiriháttar uppstokkun í stjórnarliðinu verða það þau Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra sem koma til greina.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðins hafa stjórnarflokkarnir gert með sér samkomulag um að Samfylkingin fái umhverfis- og auðlindaráðuneyti en Vinstri græn atvinnuvegaráðuneytið. Verði það raunin er Samfylkingarkonan Katrín viss um að halda ráðherrastól og valið mun því standa á milli Jóns og Svandísar, sem bæði í eru í Vinstri grænum.

Enn eina vídd má þá finna í þessum efnum og það er kynjahlutfall í hópi ráðherra. Þegar ríkisstjórnin var skipuð í núverandi mynd, með sex körlum og fjórum konum, sagðist forsætisráðherra vonast til þess að sú breyting á ráðuneytum sem hér er til umfjöllunar myndi leiðrétta kynjaskekkju. Verði kvenráðherra tekinn út úr stjórninni mun hins vegar halla enn frekar á konur og er það á skjön við gefin fyrirheit. Samkvæmt þeim rökum er Svandís í betri stöðu en Jón til að halda ráðherrastól nema til komi frekari uppstokkun í ráðherraskipan.

thorgils@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×