Innlent

Haíti: Hjálparstarfið hefur safnað 21 milljón

Sérþjálfað fólk ræðir við börnin í sérstökum barnamiðstöðvum, skipuleggur leiki og notar myndmennt til að hjálpa þeim að tjá erfiða reynslu sína og vinna úr henni
Sérþjálfað fólk ræðir við börnin í sérstökum barnamiðstöðvum, skipuleggur leiki og notar myndmennt til að hjálpa þeim að tjá erfiða reynslu sína og vinna úr henni

12,3 milljónir króna hafa safnast í páskasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar fyrir Haíti en stofnunin hefur þá samanlagt safnað tæplega 21 milljón króna til uppbyggingar á Haítí en landið fór illa út úr jarðskjálftanum í lok janúar.

„Með 5,5 milljónum króna sem söfnuðust strax eftir skjálftann og þriggja milljóna króna framlagi frá Utanríkisráðuneytinu er heildarupphæðin sem safnast hefur hjá Hjálparstarfinu til hjálpar- og uppbyggingarstarfa á vegum ACT Alliance, Alþjóðahjálparstarfs kirkna, á Haítí tæplega 21 milljón króna" segir Jónas Þórisson framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins. Hjálparstarfið er aðili að ACT en samtökin voru að störfum á Haítí fyrir skjálftann og því í einstakri aðstöðu til að sinna þar neyðar- og uppbyggingarstarfi.

„Mikið starf hefur verið unnið en enn er langt í land. Enn er hægt að greiða valgreiðsluna vegna páskasöfnunarinnar í heimabönkum," segir ennfremur í tilkynningu.

Koma þaki yfir höfuðið

Þá segir að mikil áhersla sé á að koma þaki yfir fólk. „ACT Alliance segir 90% af 1,5 milljónum heimilislausra í landinu hafa fengið nauðsynlegt byggingarefni til að koma sér upp húsnæði til bráðabirgða. M.a. hafi 7.400 hektarar norðan við höfuðborgina Port-au-Prince verið opnaðir þeim sem þurfa að koma sér upp tímabundnu húsnæði. ACT hefur dreift dýnum og nauðsynlegum heimilisbúnaði til tugþúsunda fjölskyldna, reist 5000 salerni í 651 búðum heimilislausra í Port-au-Prince, Jacmel, Gressier, Leogane og víðar. ACT-aðilar dreifa um 100.000 lítrum af vatni á dag og 4000 fjölskyldur hafa fengið sáðkorn."

Barnamiðstöðvar

„Frá upphafi skipulagði ACT meðferðarstarf með börnum. Sérþjálfað fólk ræðir við börnin í sérstökum barnamiðstöðvum, skipuleggur leiki og notar myndmennt til að hjálpa þeim að tjá erfiða reynslu sína og vinna úr henni," segir að endingu.

Reikningsnúmer söfnunarinnar er 0334-26-886 kt. 450670-0499.

Enn er hægt að greiða valgreiðslur í heimabanka en þær falla út 17. maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×