Innlent

Létu undan þrýstingi kjördæmisþingmanna

Þrýstingur frá þingmönnum Norðausturkjördæmis varð til þess að félagsmálaráðuneytið ákvað að ganga til samninga við rekstraraðila meðferðar­heimilisins Árbótar um bótagreiðslur. Þetta segir Árni Páll Árnason, þáverandi félagsmálaráðherra, berum orðum í tölvupósti sem Fréttablaðið hefur fengið í hendur frá ráðuneytinu.

„Hef áhyggjur af því að klára málið með öllum þessum útgjöldum fyrir BVS [Barnaverndarstofu] í andstöðu við forstjóra stofnunarinnar. Af hverju erum við að borga meira en 30 milljónir umfram skyldu? Hvers vegna? Jú – vegna sanngirnissjónarmiða og þrýstings frá kjördæmisþingmönnum.“ Svo segir í tölvupósti sem Árni Páll sendi á ráðuneytisstjóra sinn, aðstoðarmann og skrifstofustjóra í ráðuneytinu 7. maí.

Kristján Þór Júlíusson, þing­maður Sjálfstæðiflokksins úr Norð­austur­kjördæmi, sendi tölvupóst á póstlista þingmanna kjördæmisins 29. mars. Þar segir: „Sæl og blessuð. Ég var að ræða við Hákon í Árbót áðan.

Skemmst er frá því að segja að ekkert nýtt er að frétta af þeirra málum annað en Barna­verndarstofa sendir bara nýja unglinga til þeirra í vist. Þessu verður endilega að koma í annan og betri farveg því þetta leggst alltaf þyngra og þyngra á blessað fólkið. Treysti því að Steingrímur komi þessu í höfn.“

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði málið eðlilegt á Alþingi í gær. Eftir að Barnaverndarstofu hefði mistekist að ná lendingu í málinu hefði hún óskað eftir aðkomu félagsmálaráðuneytis­ins í marslok og við því hefði verið brugðist. Það sama kom fram í fréttatilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu í gær.

Tölvupóstsamskipti sýna hins vegar ótvírætt að samninga­viðræður á milli Steingríms, félagsmálaráðuneytisins og Árbótarhjóna voru farnar af stað í byrjun janúar, viku eftir að Barnaverndar­stofa sagði þjónustusamningnum upp með samþykki félagsmálaráðuneytisins.

Það var síðan ekki fyrr en forstjóri Barnaverndarstofu var beðinn um að óska eftir því að félagsmálaráðuneytið tæki við málinu í marslok sem málið færðist formlega yfir á forræði ráðuneytisins

Ekki náðist í Árna Pál Árnason í gær.- sh, th / sjá síðu 6



Fleiri fréttir

Sjá meira


×