Innlent

Stal fimm rándýrum úlpum

Úlpuþjófurinn náðist á öryggismyndavél.
Úlpuþjófurinn náðist á öryggismyndavél.
Fimm rándýrum úlpum var stolið frá skólabörnum í Valhúsaskóla í gærmorgun. Stúlka náðist á mynd í öryggismyndavél, þar sem hún var að skoða úlpurnar og velja úr þær sem hún síðan tók með sér út. Málið var kært til lögreglu í gær.

„Þetta gerðist allt mjög hratt og ég held að enginn sé óhultur. Við erum bara óheppin,“ segir Guðlaug Sturlaugsdóttir, skólastjóri í Valhúsaskóla.

Úlpurnar sem stolið var voru frá 66°Norður og slíkar flíkur kosta allt að sjötíu þúsund krónum.

„Það eru læstir skápar í skólanum, sem öll börnin geta notað. Við munum svo sannarlega bregðast við þessu,“ segir Guðlaug um viðbrögð skólans við þjófnaðinum. „Vitaskuld er það ansi hart að þurfa að gera ráð fyrir að svona lagað geti komið fyrir. En við verðum að horfast í augu við það.“

Guðlaug segir að einungis úlpur stúlkna hafi verið teknar. Stúlkan sem náðist á mynd hafi sést koma þrisvar inn í fatahengið þegar enginn hafi verið á svæðinu. Svo sýndist sem hún hefði kannað hvort úlpurnar væru merktar áður en hún tók þær.

„Við viljum brýna fyrir foreldrum barnanna að merkja úlpurnar þeirra almennilega,“ segir Guðlaug og bætir við að merkingarnar þurfi að vera óafmáanlegar.- jss



Fleiri fréttir

Sjá meira


×