Erlent

Borgarstjóri forðar dætrum sínum úr landi

Óli Tynes skrifar
Yuri Luzhkov, fyrrverandi borgarstjóri í Moskvu.
Yuri Luzhkov, fyrrverandi borgarstjóri í Moskvu.

Hinn eitt sinn voldugi borgarstjóri í Moskvu Yuri Luzhkov hefur ákveðið að senda tvær ungar dætur sínar til Lundúna til þess að tryggja öryggi þeirra. Dmitry Medvedev forseti Rússlands rak Luzhkov úr embætti í september síðasliðnum. Hann hafði þá verið borgarstjóri í 18 ár. Í viðtali við breska blaðið Daily Telegraph um helgina sagði Luzhkov að þau hjónin hefðu ástæðu, mjög alvarlega ástæðu til þess að óttast um öryggi dætra sinna. Þær eru 16 og 18 ára. Þeim er ætlað að vera í Bretlandi í að minnsta kosti sex ár, til náms.

Helsta ástæðan sem gefir var fyrir brottvikningu borgarstjórans var sú að hann hefði ekki staðið sig nógu vel í starfi þegar reykur frá skógareldum var að kæfa Moskvubúa í sumar. Luzhkov hefur löngum verið umdeildur borgarstjóri. Hann hefur verið sakaður um spillingu, ekki síst í tengslum við viðskipti eiginkonu sinnar Yelenu Baturinu sem varð milljarðamæringur á fasteignaviðskiptum og byggingaframkvæmdum. Borgarstjórinn segir í viðtalinu við breska blaðið að sjálfur hafi hann engar áætlanir um að flytja úr landi. Hann sé Moskvubúi og ættjarðarvinur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×