Erlent

Lítil vinna en launuð vel

Óli Tynes skrifar
Þingfundur í Írak
Þingfundur í Írak

Íraskir þingmenn hafa nú fengið greiddan árlegan þingfararstyrk að upphæð um 10 milljónir króna. Þeir fá auk þess tvær og hálfa milljón króna á mánuði í laun og frítt uppihald á besta hótelinu í Bagdad. Það sem af er árinu hafa þeir unnið í tuttugu mínútur og ekki afgreitt eitt einasta frumvarp.

Þar sem engin niðurstaða hefur fengist eftir kosningarnar sem haldnar voru í mars síðastliðnum er þingið eiginlega í lausu lofti. Þingmennirnir 325 halda þó áfram að fá útborguð launin sín og halda öllum fríðindum. Grunnlaun þingmannanna eru rúmlega ein milljón króna á mánuði, það sem vantar upp á tvær og hálfa milljón króna er í formi allskonar styrkja. Skattur þeirra er aðeins sex prósent af grunnlaununum.

Ef þeir ferðast innanlands eða utan eru dagpeningarnir 600 dollarar eða rúmlega 66 þúsund krónur. Ef þeir detta út af þingi fá þeir 80 prósent launa sinna til æviloka. Og þeir fá að halda diplomatavegabréfum fyrir sig og fjölskyldur sínar í átta ár eftir að þingsetu lýkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×