Innlent

Enginn réttur til að ganga út í Árborg - bæjarstjórinn þó í fríi

Ásta Stefánsdóttir, bæjarstjóri, eða raunar framkvæmdastjóri, Árborgar.
Ásta Stefánsdóttir, bæjarstjóri, eða raunar framkvæmdastjóri, Árborgar.

Konur í sveitarfélaginu Árborg hafa engan rétt til að ganga út af vinnustöðum í tilefni Kvennafrídagsins. Þetta kom fram bréfi bæjarstjóra Árborgar sem sent var til leikskólastjóra í sveitarfélaginu.

Þegar leikskólastjórar í Árborg leituðu eftir svörum um viðhorf Ástu Stefánsdóttur, bæjarstjóra sveitarfélagsins, við Kvennafrídeginum sendi hún þeim tölvubréf sem sagði að enginn réttur væri til þess að ganga út í tilefni dagsins.

Fréttastofa leitaði eftir frekari svörum frá Árborg vegna málsins en fékk þau svör að Ásta væri í fríi í dag og væri ekkert annað að segja um málið. Vildu starfsmenn fá frí gætu þeir leitað eftir því eins og aðra daga en bæjaryfirvöld íhlutuðust ekki í þeim málum.

Þeir leikskólastarfsmenn í sveitarfélaginu Árborg sem fréttastofa ræddi við kváðust undrandi fyrir þeim svörum sem bærust frá ráðhúsi Árborgar og þótti stefnan nokkuð á skjön við það sem gerðist í öðrum sveitarfélögum.

Til dæmis má nefna að í Reykjavík hvatti Jón Gnarr borgarstjóri konur til að taka þátt í dagskrá Kvennafrídagsins. Í formlegu bréfi til kvennahreyfinganna benti hann á að konur hafa frá örófi alda búið við mismunun hvarvetna í heiminum. Misréttið hefur meðal annars endurspeglast í virðingarleysi, lægri launum og kynbundu ofbeldi gagnvart konum á öllum aldri og í öllum þjóðfélagsstigum. Hvatti hann stjórnendur til að gera sem flestum konum kleift að taka þátt í göngunni þar sem því verður komið við. Og hafa foreldrar barna í leikskólum Reykjavíkur verið beðnir um að sækja börnin sín fyrr þennan dag.

Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, hvetur einnig konur til að taka þátt í dagskránni.

Í tómstundaheimilinu Krakkakoti í Garðabæ ganga karlar í störfin í dag. Hjallastefnuleikskólar- og grunnskólar hvetja foreldra til að sækja börn sín snemma og til þess að taka þátt í dagskránni. Landsbankinn lokar öllum útibúum nema í Austurstræti í tilefni dagsins.

Og áfram mætti lengi telja.

Í ráðhúsi Árborgar var hins vegar sagt að sama stemning hefði ekki myndast fyrir deginum.

Oddvitar minnihlutans, í Árborg úr Framsókn, Samfylkingunni og Vinstri hreyfingunni grænu framboði, sögðust heldur ekkert hafa um málið að segja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×