Fótbolti

Síðasti leikur Englendinga fyrir HM í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fabio Capello á æfingu enska landsliðsins í Suður-Afríku á dögunum.
Fabio Capello á æfingu enska landsliðsins í Suður-Afríku á dögunum. Nordic Photos / Getty Images

England leikur í dag sinn síðasta æfingaleik fyrir HM sem hefst á föstudaginn í Suður-Afríku. Enska landsliðið mætir þá suður-afríska liðinu Platinum Stars.

Fabio Capello landsliðsþjálfari mun væntanlega gefa sterklega til kynna hvernig byrjunarlið hans mun líta út í fyrsta leik Englands á mótinu, gegn Bandaríkjunum.

„Þeir leikmenn sem munu spila gegn Bandaríkjunum verða að fá að spila í 45 eða 60 mínútur í dag. Auðvitað þurfum við að hafa í huga að leikmenn geta meiðst en við verðum líka að undirbúa okkur fyrir leikinn gegn Bandaríkjunum," sagði Capello.

Rio Ferdinand verður ekki með Englandi á HM eftir að hann meiddist á hné á æfingu og er talið líklegast að Ledley King taki stöðu hans í vörninni. Þá á Gareth Barry enn við ökklameiðsli að stríða og ólíklegt að hann verði með í dag.

Þó nokkrar áhyggjur eru af öryggismálum fyrir leikinn en sextán manns slösuðust í gær fyrir æfingaleik Nígeríu og Norður-Kóreu í gær. Miðar á leikinn voru ókeypis, rétt eins og á leik Englands í dag.

Forráðamenn enska knattspyrnusambandsins hafa þó verið fullvissaðir um að fyllsta öryggis verði gætt fyrir leikinn í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×