Fótbolti

Capello ætlar ekki að breyta æfingunum hjá enska liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fabio Capello.
Fabio Capello. Mynd/AFP
Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands, ætlar ekki að breyta æfingunum eða æfingaálaginu þrátt fyrir að liðið hafi misst fyrirliðann Rio Ferdinand á fyrstu æfingu sinni eftir að liðið kom til Suður-Afríku.

„Ég veit hvað getur gerst en það er bara hluti af fótboltanum. Hvað er hægt að gera? Fara í sund og spila engan fótbolta. Þú verður að æfa og það gengur stundum ekkert betur ef þú ert að reyna að fara varlega," sagði Fabio Capello.

Rio Ferdinand meiddist á hné í lok fyrstu æfingar liðsins síðan að það lenti í Suður-Afríku eftir að hafa lent í saklausri tæklingu við Emile Heskey.

„Það getur komið upp sú staða að þú sért í leikbanni í leik og svo meiðist þú á æfingu fyrir næsta leik á eftir. Það er ekki að sjá fyrir framtíðina. Við verðum að varast meiðsli en við verðum líka að undirbúa okkur fyrir næsta leik," sagði Fabio Capello.

„Ég finn til með Rio. Þú æfir og leggur mikið á þig í eitt ár og svo gerist þetta. Þetta sýnir það að það er ekki auðvelt að spila á HM," sagði Capello.

„Ég var undirbúinn því að menn myndu meiðast á HM en ég var að vonast til þess að það gerðist í leikjum en ekki á æfingum," sagði Capello. Hann sagðist vera búinn að ákveða hvaða ellefu myndu byrja í fyrsta leiknum á móti Bandaríkjunum en að hann ætli ekki að gefa það upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×