Innlent

Allt stefnir í ofveiði

Norðmenn og ESB ætla sér meirihluta makrílaflans án tillits til annarra fiskveiðiþjóða. fréttablaðið/óskar
Norðmenn og ESB ætla sér meirihluta makrílaflans án tillits til annarra fiskveiðiþjóða. fréttablaðið/óskar
Noregur og Evrópusambandið (ESB) hafa tilkynnt að Norðmenn ætli að taka sér 183 þúsund tonn af makríl á næsta ári en að ESB taki sér 401 þúsund tonn. Samtals eru þetta 584 þúsund tonn en ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) hljóðar upp á 646 þúsund tonn.

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir þessa ákvörðun bera lítil merki ábyrgrar nálgunar. „Þeir ætla okkur, Færeyingum og Rússum samtals 62 þúsund tonn af rausn sinni. Í ár er kvóti okkar 130 þúsund tonn, Færeyinga 85 þúsund tonn og Rússa 45 þúsund tonn. Við höfum gert þeim skýra grein fyrir því að við ætlum að halda okkar hlut. Því leiðir þessi ákvörðun þeirra óhjákvæmilega til að veiðin fer vel fram úr veiðiráðgjöfinni, sem er slæmt.“

Hann segir Íslendinga í fullum rétti til að kveða á um veiðar á makríl innan íslensku efnahagslögsögunnar. Ísland hafi sama rétt og Noregur og Evrópusambandsríkin til að veiða makríl. „Veiðar okkar eru jafn lögmætar og þeirra þrátt fyrir eilífar ásakanir um annað. Það er hins vegar á ábyrgð allra hlutaðeigandi aðila að komast að samkomulagi um heildarstjórn makrílveiðanna. Það hefur því miður ekki tekist enda eru hugmyndir Norðmanna og ESB um að við veiðum einungis 3,1 prósent heildaraflans, eða um tuttugu þúsund tonn, algjörlega óraunhæfar,“ segir Friðrik. - shá



Fleiri fréttir

Sjá meira


×