Innlent

Ófriðarseggir öngruðu Steinunni Valdísi í annað sinn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lögreglan ræddi við fólkið fyrir framan hús Steinunnar Valdísar. Mynd/ Baldur Hrafnkell.
Lögreglan ræddi við fólkið fyrir framan hús Steinunnar Valdísar. Mynd/ Baldur Hrafnkell.
Nokkrir ófriðarseggir komu saman fyrir framan heimili Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, undir kvöld. Steinunn Valdís segir að um sé að ræða sama fólk og kom í gærkvöld en þá bauð hún þeim að hitta sig á skrifstofu sinni til að ræða málin.

„Ég fór út aftur núna og þá afhentu þau mér bloggfærslur af DV.is og ég ítrekaði boðið frá því í gær og þau þurftu þá bara að nefna stað og stund," segir Steinunn Valdís. Hún segir að fólkið hafi neitað og sagt að það vildi ekki fund. „Ég var ekki í neinum viðræðum við þau en þetta voru skilaboðin," segir Steinunn Valdís.

Steinunn Valdís segir að sér finnist eðlilegt að hún fái tækifæri til að útskýra þetta og fara yfir þetta en sér sýnist að menn hafi ekki áhuga á upplýstri umræðu um þessi mál. Hún segist ekki geta svarað því hvers vegna fólkið ákveði að mótmæla fyrir framan heimili hennar. „Þú verður að spyrja þau að því. Ég veit það ekki," segir Steinunn Valdís.

Eftir því sem fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis kemst næst er að mestu leyti um að ræða sama fólkið og kom saman fyrir utan hjá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrrverandi varaformanns Sjálfstæðisflokksins, í síðustu viku.

Fólkið er núna farið frá heimili Steinunnar Valdísar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×