Innlent

Vítisenglar bjóða í jólahlaðborð - engir erlendir gestir í ár

Valur Grettisson skrifar
Vítisengill.
Vítisengill.

Vélhjólaklúbburinn MC Iceland, sem hefur sótt um inngöngu í Hells Angels og náð stöðunni prospect, hyggst halda jólahlaðborð næstu helgi í Hafnarfirðinum. Meðal annars verður boðið upp á London lamb og hangikjöt. Þá verður einnig boðið upp á kalt hlaðborð.

Vísir hafði samband við meðlim klúbbsins sem staðfesti að engum erlendum gestum hefði verið sérstaklega boðið hingað til lands líkt og áður. Veisluhöld hjá vélhjólaklúbbnum hafa nefnilega oftar en einu sinni komist í fréttirnar vegna mikils viðbúnaðar lögreglunnar þeim tengdum auk þess sem erlendum meðlimum Vítisenglanna hefur ekki verið hleypt inn í landið í þeim tilgangi að sækja veislur klúbbsins.

Vítisenglar frá þremur löndum hafa kært Útlendingastofnun til dómsmálaráðuneytis fyrir að hindra för þeirra til Íslands í mars á síðasta ári. Alls bárust á annan tug kæra frá vítisenglum í Danmörku, Finnlandi og Noregi. Nokkur þessara mála eru enn í farvegi.

Ástæðan fyrir kærunum var sú að MC Iceland fagnaði afmæli sínu í mars 2009 og buðu þá fjölmörgum erlendum Vítisenglum. Yfirvöld hleyptu þeim hinsvegar ekki til landsins og fengu einhverjir þeirra að gista fangageymslur lögreglunnar á Suðurnesjum.

Samkvæmt upplýsingum frá meðlimum MC Iceland, verður jólahlaðborðið um helgina fjölskylduvænt. Það hefst klukkan sjö á laugardaginn og er haldið á Gjáhellu í Hafnarfirði.

Ríkislögreglustjóri hefur sagt opinberlega að embættið líti svo á að MC Iceland sé angi af skipulagðri glæpastarfsemi. Því hafa forsprakkar vélhjólaklúbbsins ávallt neitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×