Innlent

Julian Assange efstur hjá Time

Valur Grettisson skrifar
Julian Assange.
Julian Assange.

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, hefur hlotið flest atkvæði sem maður ársins á vef tímaritsins Time.

Julian var tilnefndur af blaðinu ásamt 24 öðrum nafntoguðum einstaklingum. Julian er í efsta sæti með um 315 þúsund atkvæði. Á eftir honum Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, en hann er með 224 þúsund atkvæði.

Hann hefur meðal annars unnið sér til frægðar að hafa gagnrýnt Ísrael harðlega eftir að herinn réðist á mótmælendur í skipi á leiðinni til Gaza fyrr á árinu. Hermennirnir drápu níu mótmælendur.

Í þriðja sætinu er svo tónlistarkonan Lady Gaga sem er með 139 þúsund atkvæði. Þá er forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, í sjötta sætinu.

Mugison hvetur alla til þess að kjósa Julian Assange sem mann ársins hjá Time.

Julian var í heimsfréttunum í gær þegar hann gaf sig fram vegna handtökuskipunar frá Svíþjóð þar sem hann er eftirlýstur fyrir minniháttar kynferðisbrot.

Breskir dómstólar neituðu honum um lausn gegn tryggingagjaldi og sætir hann því gæsluvarðhaldi í viku. Hann berst nú gegn framsali til Svíþjóðar af ótta við að verða framseldur til Bandaríkjanna þaðan.

Julian hefur í krafti Wikileaks-síðunnar birt viðkvæm skjöl bæði um hernað Bandaríkjamanna sem og samskipti bandarískra sendiráða við gistiríki sín. Stærstu blöð veraldar hafa svo birt fréttir upp úr skjölunum en þau hafa haft þau undir höndum í nokkra mánuði.

Meðal skjala sem láku út voru samskipti bandaríska sendiherrans á Íslandi við íslensk yfirvöld sem Fréttablaðið og Vísir greindu frá um helgina.

Tónlistarmaðurinn Mugison, eða Örn Elías Guðmundsson eins og hann heitir, hvetur aðdáendur og vini á Facebook til þess að kjósa Julian Assange.

Þess má geta að það er ritstjórn blaðsins sem velur mann ársins að lokum.

Fyrir þá sem vilja kjósa mann ársins hjá tímaritinu má nálgast síðuna og listann hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×