Fótbolti

Blatter við Englendinga: Þið eruð tapsárir

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sepp Blatter.
Sepp Blatter.

Sepp Blatter, forseti FIFA, er ekki sáttur við veinið í Englendingum eftir að þeir þurftu að horfa á bak HM 2018 til Rússlands.

Enskir fjölmiðlar og ráðamenn urðu reiðir í kjölfarið enda fékk England aðeins tvö atkvæði af 22 í kjörinu um HM. Mikið tal hefur verið um spillingu innan FIFA í kjölfarið.

Blatter ætlar ekki að sitja þegjandi undir þessum ásökunum og hefur nú svarað Englendingum fullum hálsi.

"Ef ég á að vera heiðarlegur þá get ég viðurkennt að þetta væl í Englendingum hefur komið mér á óvart. Af öllum löndum. Þetta er heimaland heiðarleikans í boltanum," sagði Blatter grimmur.

"Nú sér maður marga menn á Englandi sem kunna ekki að tapa. Það er ekki hægt að segja núna að hinn og þessi hafi lofað atkvæði. Úrslitin eru kunn og alls ekki umdeilanleg. Rússar unnu með yfirburðum.

Mér finnst vera ákveðinn hroki í því hvernig Englendingar hafa brugðist við. Sumir geta bara ekki sætt sig við að aðrir fái tækifæri."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×