Innlent

Sveinn Áki hlaut Barnamenningarverðlaunin

Sveinn Áki tekur við verðlaununum úr hendi Kára Stefánssonar forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar.
Sveinn Áki tekur við verðlaununum úr hendi Kára Stefánssonar forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. Mynd/Hreinn Magnússon.

Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður Íþróttasambands fatlaðra, hlaut í gær Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna árið 2010 fyrir öflugt starf í þágu ungmenna. Verðlaunaféð, tvær milljónir króna, verður nýtt til að efla enn frekar starfsemi ÍF að því er fram kemur í tilkynningu. Samtals námu styrkirnir sem afhentir voru úr Velferðarsjóði barna í gær um sjö milljónum króna.

„Þetta er í sjötta sinn sem Barnamenningarverðlaunum Velferðarsjóðs barna er úthlutað. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, afhenti Sveini Áka Lúðvíkssyni, formanni Íþróttasambands fatlaðra, verðlaunin við hátíðlega athöfn í Iðnó," segir ennfremur, verðlaunagrip úr silfri eftir Dýrfinnu Torfadóttur gullsmið og ávísun að upphæð tvær milljónir króna.

„Við sama tækifæri var Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur afhentur styrkur að upphæð 1,5 milljónir króna, Hjálparstarf kirkjunnar fékk styrk að upphæð ein milljón króna og Fjölsmiðjan fékk styrk að upphæð ½ milljón króna til tækjakaupa. Dyngjan, áfangaheimili fyrir konur og börn, fékk styrk að upphæð ein milljón króna, verkefnið Sjáðu hæfa barnið fékk 200 þúsund króna styrk og Líf og framtíð fékk 150 þúsund króna styrk."

Íslensk erfðagreining stofnaði sjóðinn fyrir tíu árum og á því tímabili hefur yfir 600 milljónum króna verið úthlutað úr honum til margvíslegra verkefna en fyrirtækið var í fararbroddi hérlendis hvað varðar stofnun slíks styrktarsjóðs. Úthlutað er úr sjóðnum 6-8 sinnum á ári.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×