Innlent

Góð reynsla af greiðslu bóta til fólks í skertu starfshlutfalli

Guðbjartur hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar þar sem lagt verður til að gildistími ákvæða til bráðabirgða lögum um atvinnuleysistryggingar verði framlengdur til 30. júní 2011.
Guðbjartur hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar þar sem lagt verður til að gildistími ákvæða til bráðabirgða lögum um atvinnuleysistryggingar verði framlengdur til 30. júní 2011.
Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun voru í október 2010 samtals 1.903 einstaklingar sem skráðir voru á atvinnuleysisskrá í hlutastarfi eða í skertu starfshlutfalli. Þriðjungurinn voru karlar, 623, en tveir þriðju hlutar konur, 1.280. Þar af fengu 1.179 einstaklingar greiddar atvinnuleysisbætur vegna skerts starfshlutfalls á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða í lögum um atvinnuleysistryggingar. Alls voru 70% þeirra konur en 30% karlar.

Þetta kemur fram í svari Guðbjarts Hannessonar, félags- og tryggingamálaráðherra, við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur, þingmanns Vinstri grænna, um hlutabætur í atvinnuleysi, sem lagt var fram á Alþingi í gær.

Álfheiður spurði ennfremur hvert mat ráðherra væri af því að atvinnuleysisbætur væru greiddar samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

Í svari Guðbjarts segir:

„Ákvæðunum um hlutabætur í atvinnuleysi var ætlað að koma til móts við þær breytingar sem urðu á íslenskum vinnumarkaði í kjölfar efnahagsþrenginganna haustið 2008. Á þeim tíma hvatti forysta atvinnulífsins fyrirtæki sem áttu í tímabundnum rekstrarvanda til að skoða þann kost að skerða starfshlutfall starfsmanna sinna fremur en að grípa til uppsagna. Var ákvæðunum því ætlað að stuðla að því að fleiri héldu störfum en ella og að dregið yrði úr þeim áhrifum sem ákvarðanir vinnuveitenda um skerðingu starfshlutfalls kynnu að hafa á réttindi launafólks."

Þá segir að ákvæðin hafi almennt þótt reynast vel og ekki síst sýnt ágæti sitt sem vinnumarkaðsúrræði þar sem starfsmenn eru áfram virkir á vinnumarkaði í að minnsta kosti 50% starfshlutfalli, í stað þess að missa hugsanlega vinnu sína að fullu.

Guðbjartur bendir á að ákvæði til bráðabirgða í lögum um atvinnuleysistryggingar sem fjallar um rétt launafólks til atvinnuleysisbóta samhliða skertu starfshlutfalli hefur reynst konum betur en körlum en mun fleiri konur hafa nýtt sér þann rétt sem ákvæðið veitir.

Ákvæði til bráðabirgða í lögum um atvinnuleysistryggingar fjallar um rétt sjálfstætt starfandi einstaklinga til atvinnuleysisbóta vegna verulegs samdráttar í rekstri þeirra reyndist þegar í upphafi nokkuð flókið í framkvæmd þar sem erfiðlega reyndist að meta samdrátt í rekstri sjálfstætt starfandi einstaklinga og hvað gæti talist tilfallandi verkefni, segir í svarinu. „Alþingi samþykkti því breytingar á ákvæðinu með lögum nr. 134/2008, um breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, þannig að hver og einn sjálfstætt starfandi einstaklingur getur nú nýtt sér þetta úrræði í allt að þrjá mánuði samfellt í því skyni að bregðast við tímabundnum samdrætti í rekstrinum. Eftir þessa breytingu hefur ákvæðið reynst vel í framkvæmd," segir í svari Guðbjarts.

Guðbjartur hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar þar sem lagt verður til að gildistími ákvæða til bráðabirgða lögum um atvinnuleysistryggingar verði framlengdur til 30. júní 2011. Í þeim tilgangi að ná fram markmiðum í ríkisfjármálum sem fram koma í frumvarpi til fjárlaga 2011 er jafnframt gerð tillaga um að starfshlutfall launafólks verði að skerðast um 30% hið minnsta í stað 20% áður svo hlutaðeigandi geti átt rétt á hlutfallslegum greiðslum samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×