Innlent

Tekið undir tillögu um rannsókn á Íbúðalánasjóði

Íbúðalánasjóður var ræddur í gær að ósk Guðlaugs Þórs Þórðarsonar Sjálfstæðisflokki. 
 fréttablaðið/gva
Íbúðalánasjóður var ræddur í gær að ósk Guðlaugs Þórs Þórðarsonar Sjálfstæðisflokki. fréttablaðið/gva
Guðbjartur Hannesson félagsmálaráðherra er fylgjandi sjálfstæðri og óháðri rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs frá aðdraganda breytinganna á fjármögnun og lánareglum Íbúðalánasjóðs sem hrint var í framkvæmd á árinu 2004. Ráðherrann sagði á Alþingi í gær að hann styddi heilshugar tillögu Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, Samfylkingu, um slíka rannsókn.

Guðmundur Steingrímsson, Fram­sóknar­flokki, tók undir að rétt væri að rannsaka: „Ég get skilið að það sé rannsóknarefni að Íbúðalánasjóður skuli enn standa.“

„Hér fór allt fjármálakerfið á hliðina,“ sagði Guðmundur, „en Íbúðalánasjóður stendur og er enn þá hornsteinninn að íbúðalánakerfi landsmanna.“

Eiginfjárhlutfall sjóðsins hefði verið 7-8% fyrir hrun en væri nú 1,5-2%. Einnig væri rannsóknarefni hvers vegna sjóður­inn hefði ekki verið einkavæddur þrátt fyrir háværar kröfur frá innlendum stjórn­málaöflum, erlendum eftirlitsstofnunum og matsfyrirtækjum. Guðmundur sagðist þakka Framsóknarflokknum það að hafa komið í veg fyrir þá einkavæðingu.

Fram kom við umræðuna að ríkið þyrfti að leggja fram 22 milljarða króna til sjóðsins fyrir árslok til að mæta afskriftum og tryggja að eiginfjárhlutfall yrði þá ekki undir fimm prósentum. 2,2 milljarða þarf að leggja fram til viðbótar fyrir árslok 2011.

Guðbjartur Hannesson sagði ljóst að afskriftir sjóðsins ykjust vegna samkomulagsins á dögunum um aðgerðir í þágu heimilanna en ekki væri ljóst hve mikil aukningin yrði.

Guðmundur Steingrímsson sagði að svara þyrfti betur hvers vegna gera ætti ákveðnar kröfur um eiginfjárhlutfall til sjóðs sem væri í eigu ríkisins og rekinn með ríkisábyrgð.

peturg@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×