Sahil Saeed er kominn heim til Bretlands eftir að hafa verið rænt í Pakistan í byrjun mars. Sahil er fimm ára gamall snáði af pakistönskum uppruna en hann var hjá ömmu sinni þegar honum var rænt. Faðir drengsins greiddi mannræningjunum 110 þúsund pund, eða rúmlega 20 milljónir, til þess að endurheimta drenginn sinn.
Hann afhenti peningana í Frakklandi. Lögreglan elti svo mannræningjana til Spánar. Þar voru þau handtekin eftir að lögreglan var viss um að Sahil væri óhultur.
Í ljós kom að mannræningjarnir voru tveir pakistanskir karlmenn og ein rúmensk kona. Þau voru handtekin með peningana sem og farsíma sem þau notuðu til þess að hafa samskipti við föður drengsins.
Þau hafa öll neita sök í málinu en óljóst er hvar lögsagan er þar sem glæpurinn átti sér stað í Pakistan, svo Frakklandi og að lokum á Spáni.
Drengurinn aftur á móti er alsæll. Það fyrsta sem hann spurði móður sína að þegar hann var laus úr prísundinni var hvar latabæjardúkkan hans af íþróttaálfinum væri, en hann er mikill aðdáandi Latabæjar.
Hann kom síðan til Bretlands í dag, en fjölskyldan er búsett í Oldham, Manchester.
Faðir drengsins bað fjölmiðla um að gefa fjölskyldunni rými á meðan þau jafna sig á hremmingunum. Sahil ber sig mjög vel miðað við ótrúlegar raunir samkvæmt breskum fjölmiðlum.