Innlent

Japanar vilja hitaveitu að íslenskri fyrirmynd

össur 
skarphéðinsson
össur skarphéðinsson
Japönsk stjórnvöld hafa óskað eftir auknu samstarfi við Íslendinga um nýtingu jarðhita. Japanar hafa ákveðið að verja gríðarlegum fjárhæðum til að byggja upp endurnýjanlega orkugjafa í þróunarlöndunum, að sögn Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra.

Össur var í Tókýó í síðustu viku þar sem hann hélt fyrirlestur á stórri jarðhitaráðstefnu sem Ísland og Japan héldu sameiginlega í Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

„Japanar eru framarlega í notkun háhita til að framleiða raforku en það kom mér á óvart hversu miklir möguleikar eru á ákveðnum svæðum í Japan til að koma upp hitaveitum að íslenskri fyrirmynd,“ segir Össur. Hann segir nokkur af stóru verkfræði- og orkufyrirtækjum Japana þegar hafa lýst vilja skriflega til að fá íslensk verkfræðifyrirtæki til liðs við sig í því skyni að hitaveituvæða nokkrar borgir í Japan.

Tilgangur Japansferðarinnar var einnig að ræða við opinbera sjóði og ráðuneyti sem veita ábyrgðir til að liðka fyrir fjárfestingum. Er þá átt við kaup Orkuveitu Reykjavíkur (OR) á túrbínum sem notaðar hafa verið við jarðhitavinnslu. Össur segir fjármögnun hafa verið erfiða eftir bankahrunið.

„Það er óhætt að segja að undirtektir voru góðar, bæði hjá sjóðum og ráðherrum,“ segir Össur. Með í för voru fulltrúar frá Orkuveitu Reykjavíkur (OR), þar á meðal Helgi Þór Ingason forstjóri.

„Þetta gekk ágætlega,“ segir Helgi. „Þetta er flókið mál að komast í gegn um og við vorum spurðir margra spurninga og við gátum öllum svarað. Ég er mjög þakklátur ráðuneytinu fyrir góða frammistöðu og gott skipulag.“

Össur tekur undir orð Helga og segir menn almennt vera bjartsýna á framhaldið. Besta fjárfesting japönsku sjóðanna væri að tryggja liðveislu íslenskra sérfræðifyrirækja, sem væru fremst á því sviði.

„Ég átti viðræður bæði við utanríkis- og iðnaðarráðherra Japan og í lok ráðstefnudagsins lýstu stjórnvöld yfir að þau myndu óska eftir því við Íslendinga að þeir tækju þátt í sérstökum vinnuhópi um hvernig best væri hægt að haga samstarfi Japana og Íslendinga varðandi nýtingu jarðhita, bæði í Japan og í þróunarlöndunum,“ segir utanríkisráðherra. sunna@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×